30.6.2007 | 00:14
Frjálshyggjan.
,,Sýnum augum lýtur hver á silfrið ''datt mér í hug þegar ég renndi augunum yfir pistil Hannesar Hólmsteins prófsessors hér á síðum.Þar lýsir hann kostum frjálshyggjunnar og vitnar í fræga erlenda fræðimenn. Trúr sinni sannfæringu bendir hann félagshyggjufólki á villu sins vegar og vísar þeim veginn, hinn eina rétta. Sem betur fer eru ekki allir sama sinnis og hann en því miður allt of margir Mörgum finnst frjálshyggjan jafn vitlaus og vonlaus eins og kommúnisminn er í sinni verstu mynd. Frjálshyggjan hefur það að aðalmarkmiði að hámarka gróðann. Til að hámarka hann þarf ódýrt vinnuafl og að fá sem mest út úr því á sem skemmstum tíma. Þar með er verið að nota fólk. Það virðist sem frjálshyggjan geri ráð fyrir að allir eigi þá ósk heitasta að verða ríkir. Það er ekki þannig. Mörgum nægir að vinna heiðarlega langan vinnudag og fara bara fram á að geta lifað af laununum sínum. Frjálshyggjuaðdáendur virðast líka gleyma að menn eru ekki allir jafnvel af guði gerðir og sumir þurfa á samfélagshjálp að halda, jafnvel frá fæðingu. Þá um leið er komið að einum aðalpunkti frjálshyggjumanna til að réttlæta lága skatta fyrirtækja,það er að þegar gróðinn er orðin nægur þá geta auðmennirnir náðarsamlegast gefið fátæka og veika fólkinu molana sem detta af borðum þeirra. Það virðist vera svo að vinnandi fólk, láglaunafólk þurfi líka að þiggja síkar gjafir. A.m.k. ef það hefur ekki heilsu til að vinna meira en dagvinnuna. Eða hvaða þúsundir manna eru það sem leita til Fjölskylduhjálparinnar, þar sem forstöðumaðurinn auglýsti eftir ölmusugjöfum fyrir skjólstæðinga sína? Margir velja félagshyggjuna sem betur fer.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þvílíkur og annar eins misskilningur á frjálshyggjunni er erfitt undir nokkrum kringumstæðum að grafa upp, eins og lesa má úr þessum fráleitu skrifum.
Brjótum þetta niður:
"Frjálshyggjan hefur það að aðalmarkmiði að hámarka gróðann."
Þetta er alrangt, í raun kemur þetta ekkert frjálshyggjunni við. Skilningur þinn á frjálshyggju er greinilega nákvæmlega enginn. Allir hámarka gróða sinn alltaf, frjálshyggjumenn sem félagshyggjumenn, þetta er ekki einkenni frjálshyggjunnar.
"Til að hámarka hann þarf ódýrt vinnuafl og að fá sem mest út úr því á sem skemmstum tíma. Þar með er verið að nota fólk."
Þessi athugasemd dæmir sig sjálf. Þeir sem reka fyrirtæki reyna að hámarka gróða sinn, hvort sem þeir eru frjálshyggjumenn eða félagshyggjumenn. Viðkomandi einstaklingar þurfa enga síður að hafa fólk í vinnu. Þar kemur punkturinn. Þeir sem reka fyrirtæki, taka mikla áhættu. Áhættan sem þeir taka er vel umbunuð ef vel gengur. Þessir einstaklingar reka allt hagkerfið áfram og skapa störf sem ekki voru til áður. Margir verða ríkir á því, og aðrir verða öfundsjúkir og afbrýðissamir að hafa ekki haft þor í að taka þessi skref sjálf. Hvernig er verið að nota fólk eiginlega? Það er verið að bjóða því vinnu, sem það hefði annars enga. Það er frjálst val einstaklinga hvort þeir vinna vinnuna eða ekki. Ef enginn vinnur vinnuna því hún er svo illa borguð, fær frumkvöðullinn enga starfsmenn og fer þá á hausinn. Það vill hann ekki og hann hækkar launin uns einhver stígur fram og tekur vinnuna. Grundvallarlögmál hagfræðinnar segir okkur að verð á vöru eða þjónustu er nákvæmlega það sem einhver er til í að borga fyrir hana. Þetta gildir líka um laun.
"Það virðist sem frjálshyggjan geri ráð fyrir að allir eigi þá ósk heitasta að verða ríkir."
Það er algjör fásinna. Hvergi kemur það fram í skilgreiningu frjálshyggjunnar að þetta sé eitthvert atriði hennar. Frjálshyggjan gerir bara ráð fyrir að fólk hafi frelsi til að skapa sér auð, eða vera launþegar, hvort sem það vill. Hornsteinn frjálshyggjunnar er frelsi til að velja sér sitt eigið líf. Þetta stendur mikið í félagshyggjufólki, sem virðist hafa það sameiginlegt að vilja alltaf handstýra lífi annarra. Það er dónalegt og hættulegt.
"Frjálshyggjuaðdáendur virðast líka gleyma að menn eru ekki allir jafnvel af guði gerðir og sumir þurfa á samfélagshjálp að halda, jafnvel frá fæðingu. Þá um leið er komið að einum aðalpunkti frjálshyggjumanna til að réttlæta lága skatta fyrirtækja,það er að þegar gróðinn er orðin nægur þá geta auðmennirnir náðarsamlegast gefið fátæka og veika fólkinu molana sem detta af borðum þeirra."
Þetta er alveg öfugsnúin sýn á frjálshyggjuna. Fólk er alltaf misjafnt. Sumir þurfa hugsanlega stundum á hjálp að halda, en aumingjavæðing félagshyggjunnar er löngu komin út fyrir öll velsæmismörk. Frjálshyggjan trúir því að mannskepnan vill hjálp hvor annarri ef þörf krefur. Frjálshyggjan finnst hinsvegar ríkið allélegasti rekstraraðili á samfélagshjálp sem til er, og einokun ríkisins til þess gerð að einstaklingurinn verður daufur fyrir umhverfinu sínu og síður líklegur til að hjálpa náunganum fyrir vikið. Vantrú félagshyggjumanna á löngun mannsins til að hjálpa náunganum er frekar endurspeglun á þeim sjálfum.
Misskilningur þinn á frjálshyggjunni er skólabókardæmi um hvernig fólk blaðrar vitleysunni út úr sér án þess að kynna sér málin og rökræða þetta við sjálfan sig.
Farðu á frjalshyggja.is og lestu þig til um hugmyndir frjálshyggjunnar, þú munt fljótlega sjá hvað þú hefur mikið rangt fyrir þér.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 30.6.2007 kl. 01:58
Frjálshyggjan er ekki hagspeki heldur trúarbrögð sem þjóna einungis stórfyrirtækjum. Það er því ekki hægt að rökræða við frjálshyggjumenn. Einungis hægt að benda á skaðsemi frjálshyggjunnar fyrir manneskjur. Það gerir Einar Már Jónsson í Bréfi til Maríu á einstaklega skemmtilegan og ljósan máta.
María Kristjánsdóttir, 30.6.2007 kl. 07:16
Þvílík og önnur eins fáviska. Ef þér María, dettur einhvern tímann í hug að opna hagfræðibók, sem mér heyrist þú aldrei hafa gert, munt þú lesa frjálshyggjuna orðrétt. Frjálshyggjan er nákvæmlega það, hrein hagvísindi og á ekkert líkt við trúarbrögð, heldur rökhyggja í sinni hreinustu mynd. Það er ótrúlegt hvað fólk getur bölmóðast út í frjálshyggjuna, vitandi það að þau skref sem hafa verið tekin til að bæta lífskilyrði mannsins undanfarna áratugi eru hrein hagfræðiskref, ergo frjálshyggjuskref, afnám haftastefnu, aukið atvinnufrelsi og skatthlutfallslækkanir sem skila margföldum skatttekjum í ríkissjóð. Fáfræðin er beinlínis dónaleg.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 30.6.2007 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.