10.8.2007 | 12:29
Hægri menn í kratafötum.
Hvar eru íslenskir hægri menn? Hvergi í sjórnmálaumræðunni á Íslandi gefa menn sig upp sem hægri menn og sker Ísland sig úr frá öðrum þjóðum hvað þetta varðar.
Hver skyldi vera skýringin á þessu? Í Sjáflstæðisflokkurinn sem er með 35 til 40% fylgi þjóðarinnar og allir vita að er stjórnað af hægri mönnum, þar segist enginn vera hægri maður. Gæti skýringin verið sú að hægri menn vita að hægri stefna í stjórnmálum á ekki upp á pallborðið hjá meiri hluta íslendinga. Því er gripið til hinna stóru blekkingar að þykjast vera jafnaðarmaður opinberlega en vera í raun hægri maður með sömu stefnu og hægri menn um allan heim.
Hægri stefna sem byggist m.a. á því að hafa ríkisrekstur sem allra minnstan, hafa lága skatta á háar tekjur og einkavæða eins mikið og mögulegt er. Þetta er stefnan og þetta er hugsun hægri manna en þetta má ekki segja.
Hægri menn á Íslandi eru mjög flinkir í þessum blekkingum sem sést m.a. í því hvað fylgi Sálfstæðisflokksins er mikið. Fyrir utan atvinnurekendur og fjármagnseigendur þá styðja flokkinn stórir hópar launþega, hverra hagsmunir fara á engan hátt saman með hagsmunum atvinnurekenda og fjármagnseigenda.
Ástæðan er sú að fyrir kosningar fara hægri menn í Sjáflstæðisflokknum í kratafötin og boða jöfnuð á öllum sviðum þjóðfélagsins en eru á sama tíma að lækka skatta sem hefur þær afleiðingar að fólk þarf sjálft að borga fyrir opinbera þjónustu í auknum mæli sem kemur auðvitað langverst niður á þeim tekjulágu. Þannig er ekkert samræmi milli orða hægra mannsins í kratabuxunum og því sem hann í raun framkvæmir þegar hann fær tækifæri til.
Er ekki komin tími til að hægri menn komi út úr skápnum að þessu leyti og viðurkenni að þeir séu hægri menn og hafi hægri stefnu. Er ekki einnig fyrir löngu kominn tími til að launþegar og allur almenningur í landinu átti sig á því að þeir eigi ekkert sameinlegt með þeim hægri mönnum sem í raun stjórna sjálfstæðisflokknum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er hægrimaður!
Hvaða vitleysa er þetta? Ég þekki marga aðra hægrimenn og þeir skammast sín ekkert fyrir það. Enda engin ástæða til.
Ég man greinilega eftir því að Geir Haarde hafi sagst vera frjálshyggjumaður í kosningaviðtali hjá RÚV.
Heldurðu að frjálshyggja þýði kratismi?
Og af hverju heldur þú að hægri menn vilji eiginlega að vilja fela sína hægrimennsku? Út af hinni skelfilega lífskjararýrnun sem íslensk alþýða hefur þurft að þola yfir síðustu kjörtímabil...
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 13:44
Rétt hjá þér vissulega eru undantekningar. Undantekningin sannar regluna ekki satt. Ég man ekki eftir að forsætisráðherra vor hafi sagst vera frjálshyggjumaður, þó tel ég mig fylgjast nokkuð vel með stjórnmálaumræðunni. Ætla samt ekki að deila um það.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.8.2007 kl. 17:42
Ég er hægri maður, stoltur af því, enda eina vitið.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 10.8.2007 kl. 20:26
Það er margt skrýtið í þessu skilgreiningum er það ekki? Mig minnir að hægri menn hafi talað um að Tony Blair hafi stolið þeirra málstað og hlotið vinsældir fyrir.
Hitt er áhugavert sem þú talar um og það er af hverju hægri flokkur eins og minn góði sjálfstæðisflokkur skuli höfða mikið meira til launþega en hinir ýmsu vinstri flokkar sem við höfum haft. Þetta er víða öðruvísi.
Hef ekki svarið en hef verið að láta mér detta það í hug að í dag eru vinstri flokkarnir ekki lengur flokkar launþega og þeirra sem minna mega sín. Þeir eru flokkar menntamanna. Gjarnan fólks sem hefur sótt menntun sina til skandinavíu. Fólk sem í dag er allsskonar "fræðingar" sem margir þola illa. Sérstaklega gengur lítt menntuðu og illa launuðu fólk oft illa að þola slíkt.
Mörgum finnst bæði VG og samfylking sýna "hinum vinnandi stéttum" óvirðingu. Og landsbyggðinni stundum. það er barist gegn fyrirtækjum sem útvega vinnu, oft vel launaða vinnu, til handa lítt menntaðs fólks. Álver eru gott dæmi. Menntamennirnir í Reykjavík hafa meiri áhuga á að hugsa um umhverfismál en atvinnumál. Og velferðarkerfi sem hjálpar þeim sem ekki hafa atvinnu.
Hægri menn eru praktískari. Fólk vill frekar vinnu en gott atvinnuleysiskerfi.
Kannski er þetta hluti af skýringunni.
Rögnvaldur Hreiðarsson, 14.8.2007 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.