Einangrunarsinnar.

Alltaf er að koma betur og betur í ljós að í landinu eru í raun tvær þjóðir.  Annars vegar eru þeir sem vilja eiga samleið með Evrópuþjóðum og vilja sækja um aðild að ESB og vilja taka upp evru og hins vegar eru þeir sem vilja einangra þjóðina frá samstarfi við aðrar þjóðir.

Á landsfundi VG og Sjálfstæðisflokksins hefur þetta komið mjög sterklega fram.  Þetta furðulega viðhorf að vilja einangra þjóðina frá samstarfi við aðra er óskiljanleg eða í besta falli ótrúlega heimskuleg. Þessi ofsa hræðsla við viðræður um aðild að ESB verður ekki skýrð með neinum venjulegum rökum.  Heldur er þetta miklu nær trúarofstæki.

Það ætti að vera öllum Íslendingum morgunljóst eftir bankahrunið að auðvitað verðum við að skipta um gjaldmiðil og til þess að það sé hægt verðum við að sækja um aðild að ESB.  Svo einfalt er það. 

Samfylkingin má vel við una.  Hún er núna stærsti flokkur þjóðarinnar og stefnir í það að verða langstærsti flokkur þjóðarinnar þegar að þessari ofsahræðslu einangrunar sinna linnir og skynsamt fólk fer að draga skynsamlegar ályktanir um framtíðina.  Eftir sitja þá hluti Sjálfstæðisflokksins og hluti af VG ásamt öllum Björtum í Sumarhúsum og una vel við sitt á Möðrudalsöræfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef ég er á móti inngöngu í ESB er ég þá orðinn einangrunarsinni sem vill "einangra þjóðina frá samstarfi við aðrar þjóðir"? Hvernig í ósköpunum getur þú fengið það út?

Ísland á þegar aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum sem varða alla þætti mannlífsins. Þar mun Ísland starfa áfram. Það að ganga inn í ESB afléttir ekki neinni einangrun. Að standa utan þess veldur ekki einangrun. Innan Evrópusambandsins eru 27 ríki en utan þess eru ríkin á þriðja hundrað.

Í dag höfum við fullt frelsi til að eiga samskipti við öll lönd; Kanada, Kína, Bandaríkin, Rússland, Noreg, Indland, Japan, Brasilíu og hvaða ríki sem er. Og auðvitað Evrópusambandið líka. Það gildir um allar tegundir samskipta: Verslun, viðskipti, menntun, menningu, og hvað sem vera vill.

Það er unnið að viðskiptasamningi við Kína. Ef Ísland gengur í ESB megum við ekki gera slíkan samning. Það er Evrópusambandið sem semur fyrir hönd sambandsins, en einstök ríki gera það ekki sjálf. Ef einhver hætta er á einangrun felst hún í því að ganga í ESB og einangra Ísland í Evrópusambandinu. 

Það má segja margt gott um Evrópusambandið. En ef þjóð í kreppu ætlar að fara þangað inn í þeirri von að það flýti efnahagsbata, þá er það innganga á röngum forsendum. Meira að segja ESB sinninn Uffe Ellemann-Jensn varar Íslendinga sérstaklega við inngöngu á þeim forsendum. Enda er það eitruð blanda af uppgjöf og úrræðaleysi.

Haraldur Hansson, 28.3.2009 kl. 13:01

2 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Sæll Haraldur

Tek eftir að þú minnist ekki einu orði á kjarna málsins þ.e gjaldmiðilinn. Erfitt að rökræða ef menn tala út og suður. Kjarni málsins er sá að krónan okkar hefur lengi verið veik og mjög óstöðugur gjaldmiðill. Eftir hrunið er staðan orðin sú að krónan er gersamlega óhæfur gjaldmiðill til framtíðar. Eini möguleikinn út úr öngþveitinuer að taka upp evru og til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að ganga í  Evrópusambandið. Allt tal um að taka upp evru einhliða er bull. Einangrunarsinnar eru því ekki rangnefni . Ef við ætlum að þrjóskast við eins og Bjartur forðum og halda áfram með ónýtan gjaldmiðil lendum við í eingrun frá umheiminum´og færumst aftur um áratugi í lifsgæðum.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 28.3.2009 kl. 18:50

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæl aftur Þórdís Bára.

Ég tala hvorki út né suður. Skoðaðu færsluna þína. Þú gengur svo langt að tala um "tvær þjóðir" í landinu. Önnur eru einangrunarsinnar þjakaðir af ofsahræðslu, hin er skynsamt fólk. Þú hnykkir svo á þessari svart-hvítu mynd í svari þínu með því að segja "eini möguleikinn út úr öngþveitinu ..."  Það er sama hver staðan er, það er aldrei bara einn möguleiki. Þá þyrfti ekki að ræða málin.

Mín athugasemd er komin til af fullyrðingu þinni um að "vilja einangra þjóðina frá samstarfi við aðra". Ég held að enginn Íslendingur vilji einangra þjóð sína. Að dæma skoðun mína ómerka af því að orðið "evra" er ekki notað eru rök sem ekki ganga upp.

Prófum annað sjónarhorn:
Ég er bara alls ekki sammála því að evran sé kjarni málsins. Ég vil frekar horfa lengra fram á veg. Gefum okkur að Ísland gangi í ESB, kreppan gangi yfir á nokkrum árum og fáeinum árum síðar uppfyllum við skilyrði fyrir því að skipta um gjaldmiðil og tökum upp evru. Hvað svo?

Verðum við sátt eftir 15 ár með stöðu okkar innan ESB eða munum við líta til baka með eftirsjá yfir að hafa tekið ákvörðun í panikk yfir kreppunni? Ert þú sjálf ánægð með þær breytingar sem boðaðar eru í Lissabon samningnum? T.d. með hið nýja embætti utanríkisráðherra Evrópusambandsins og verksvið hans? Eða að löggjöf á sviði orkumála verði færð til Brussel? Eða að "internal market" sé stungið inn hér og þar í grunnsamningana til að auka ítök Brussel í ýmsum málaflokkum gegnum Evrópudómstólinn? 

Ertu sátt við lýðræðið innan ESB? Veistu hver er fulltrúi Breta í Framkvæmdastjórn ESB? Nei, líklega ekki. Gúgglaðu það og finndu svo út hvernig sú kona er komin í þennan stól. Berðu það saman við úrslit kosninganna í Bretlandi og reyndu að útskýra fyrir sjálfri þér hvað það hefur með lýðræði að gera. Kannski að það varpi ljósi á hvers vegna kjörsókn í kosningum til Evrópuþingsins er ekki nema 46%. Það myndi ekki einu sinni duga fyrir bindandi úrslit í prófkjöri í litlum flokki á Íslandi.

Það eru svona hlutir sem skipta ekki síður máli en evran. Þó evran sé kannski þung á metunum er hún ekki kjarni málsins, heldur hvaða vald er framselt, hverjir fá það í hendur og hvernig er farið með það. Leikreglurnar sem næstu kynslóðum Íslendinga verða settar eftir inngöngu í Evrópusambandið.

Haraldur Hansson, 30.3.2009 kl. 10:55

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Haraldir. ESB er með viðskiptasamninga við 176 þjóðir utan sambandsins. Það er því bull að því fylgi einhver einangrun hvað varðar viðskipti við þjóðir utan bandalagsins að fara þar inn.

Þarna er um að ræða samninga þar, sem 48 fátækustu ríki heims hafa mjög opin viðskiptasamskipti við okkur en hjá afgangnum af þessum 176 ríkjum eru samingarnir misopnir og fer það eftir ástandi mannréttindamála í hverju ríki fyrir sig hversu opnir samningarnir eru. Ég veit ekki um þig en þannig vil ég að við á Vesturlöndum séum almennt með samninga við önnur ríki.

Ég geri ráð fyrir því að ástæða þess að ESb sé ekki með viðskiptasamning við Kína sé sú að kínverjar vilja ekki láta ESB skipa sér á einhvern bekk hvað mannréttindamál varðar. Ég segi fyrir mig að ég hef ekki áhuga á viðskiptasamningum við ríki með jafn slæman feril í mannréttindamálum og Kína.

Sigurður M Grétarsson, 1.4.2009 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband