7.8.2009 | 09:37
Steingrímur skýrði þetta vel í Kastljósinu í gær.
Seint verður undirrituð sökuð um að styðja Vinstri Græna en þó verð ég að segja að mér fannst Steingrímur skýra vel út í kvöld í Kastljósviðtalinu um hvað þetta Icesave mál snýst um í raun og veru. Ótrúlegur misskilningur virðist vera í gangi.
Í stuttu máli fjallar Icesave samningurinn um það að Landsbanki íslands opnaði útibú í Bretlandi og Hollandi og safnaði innistæðum einstaklinga og margskonar félagasamtaka.
Við hrun Landsbankans, eins og við munum, voru allar innistæður Íslendinga í Landsbankanum tryggðar 100%. Þar sem Landsbankinn var með útibú í Bretlandi og Hollandi á það sama að gilda.
Ákveðið var að bæta öllum einstaklingum innistæður sem þeir töpuðu við hrunið en hins vegar fengu félagasamtök ekki neitt. Þar af kom í hlut okkar Íslendinga að bæta þessum einstaklingum tap allt að 20 þúsund evrum á mann að hámarki en þeir sem áttu innistæður umfram það fengu það bætt frá Bretum og Hollendingum.
Samið var um þessi mál í haust og ákveðið að fara svokallaða samningaleið en fara ekki með málið fyrir dómstóla. Þetta samþykkti þáverandi ríkisstjórn og því er allt tal núna um svokalla dómstólaleið út í hött.
Kjarni málsins er sá að Landsbankinn var ekki búinn að breyta útibúum sínum í dótturfélög þegar hrunið varð og því hljóta allir sanngjarnir menn að sjá að einstaklingar í Bretlandi og Hollandi eiga siðferðilega sama rétt og Íslendingar sem lögðu sína peninga inn í Landsbankann hér á landi.
Um allan heim er viðurkennt að við bankahrun skuli innistæður einstaklinga vera varðveittar. Ef við viljum vera sanngjörn er þá eðlilegt að ætlast til þess að Bretar og Hollendingar borgi innistæður sem útibú Landsbankans bar ábyrgð á.
Ég er ekki þar með að segja að samningurinn sé gallalaus og því síður að ég haldi eitthvað sérstaklega með Bretum og Hollendingum en mér finnst lágmark að við viðurkennum um hvað þetta mál snýst í grundvallaratriðum.
„Það er búið að semja!“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.