12.9.2009 | 11:16
Að eiga einkahlutafélag í Paradís.
Undirrituð verður sífellt meira undrandi af fréttum sem nú berast daglega af bankahruninu mikla. Hélt í fyrstu að aðalatriðið í málinu væri það að við hefðum lent í alþjóðlegri bankakreppu og hefðum orðið fórnarlamb hennar.
Nú er hins vegar að koma í ljós og á eftir að koma enn betur fram að megin orsakavaldurinn erum við sjálf. Óskiljanleg og jafnvel glæpsamleg græðgi virðist hafa ráðið ferðinni
Einkavæðing bankanna virðist alveg hafa mistekist. Í stað þess að fá meiri samkeppni sem var hið yfirlýsta markmið kom til einkavinavæðing sem gjörsamlega rústaði bönkunum. Eigendur bankanna sem fengu lán hver hjá öðrum til að geta eignast þá að nafninu til virðast hafa vaðið yfir hina ungu og óreyndu bankastjóra og notað innlán almennings til að fá lán fyrir eigin fyrirtæki, fyrirtæki skyldmenna, fyrirtæki vina og vandamanna og tengdra aðila.
Það flottasta í málinu var að stofna endalaus einkahlutafélög með flóknum eignatengslum til að blekkja eftirlitsaðila og skattayfirvöld. Það alflottasta var síðan að fá yfirmenn og sérfræðinga í bönkunum til að stofna fyrir sig einkahlutafélög í Paradís á Karabíska hafinu.
Eftir situr hnípin þjóð í vanda og tugþúsundir heimila eru í gífuregum erfiðleikum.
Þetta sýnir okkur ótvírætt að við hefðum lent í þessu bankahruni þó erlenda bankahrunið hefði ekki komið til. Frjálshyggjumennirnir sem stóðu að einkavæðingu bankanna án þess að setja nokkrar reglur eða hömlur bera mikla ábyrgð á því hvernig fór. Hvernig gátu menn verið svona heimskir?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.