Huglausir andstæðingar ESB.

Sérstaka athygli vekur ofsahræðsla ESB andstæðinga við að fara í aðldarviðræður við Evrópusambandið.

Þannig breytti Landsfundur Sjálfstæðisflokksins vilja formanns flokksins um þetta efni og krafðist þess að umsóknin yrði dregin til baka.  Sú breyting var auðvitð ekkert annað en vantraust á formanninn.

Sama má segja um Ásmund Einar Daðason þingmann VG.  Þessi ungi þingmaður keppist nú við að reyna að brjóta stjórnarsáttmálann með því krefjast þess í hugleysi sínu að umsóknin að aðildarviðræðum verði dregin til baka.

Ekki er þetta góð meðmæli með ungum þingmanni. hver treystir þessum manni í framtíðinni.

Meira að segja breski Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan, sem er yfirlýstur andstæðingur ESB telur það mikið óráð að draga aðildarumsóknina til baka.

Við hvað eru ESB andstæðingar svona ofsalega hræddir.  Það vita allir að þetta mál fer að lokum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gæti skýringin verið sú að þegar aðildarviðræður hefjast muni almenningur komast að því að með aðild myndu Íslendingar öðlast lágt vöruverð stöðugan gjaldmiðil og lága vexti og losna við verðtrygginguna í leiðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr... 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 13:50

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

1. Ég hræðist það, að Evrópubandalagið ausi inn í þetta þjóðfélag eða í vasa áróðursmanna fyrir innlimunarstefnuna og í auglýsingamennsku í vilhöllum fjölmiðlum og til "kynningarstarfs" með heimboðum til Brussel og uppihaldi þar og mjúkri áróðursmeðfeðferð (sbr. nýlegt boð blaðamanna og bloggara) milljörðum króna, rétt eins og bandalagið gerði gagnvart Tékkum, þar sem eytt var því sem svaraði til tæplega 80 milljarða króna í slíkt áróðursstarf og þar sem 70% ADSTÖÐU við inngöngu í bandalagið var á fáum mánuðum breytt í rétt rúmlega 50% jánkunar-atkvæði.

2. Ég hræðist það valdfreka yfirríkjabandalag, sem hefur á margan hátt sýnt það í orðum og gjörðum, að það vill komast yfir Ísland og gerði það síðast nú í mánuðinum með því að breyta reglugerð hjá sér til að auðvelda því að bera fé á Íslendinga.

3. Ég hræðist það, að margir Íslendingar séu svo illa upplýstir, að þeir hafi ekki varann á sér gagnvart því villandi og blekkjandi "kynningarefni", sem flæðir og flæða mun frá Evrópubandalaginu og vinasamtökum þeirra hér á landi.

4. Ég hræðist það, að margir (um 60%) kjósenda Samfylkingarinnar – og hugsanlega fleiri, þegar róðurinn herðist – muni treysta forystu sinni til að hafa rétt fyrir sér í þessu máli, þótt staðreyndin sé, að hún hegðar sér á óábyrgan hátt og er að svíkja hugsjónir feðra okkar og mæðra um sjálfstætt og fullvalda Ísland.

5. Ég hræðist það sama og Þórdís sjálf við hverjar kosningar, að útkoman geti orðið ömurleg, eða telur frú Þordís kjósendur ævinlega óskeikula og aldrei blekkta, m.a. í krafti peningavalds sumra flokka?

Fleiri réttmæt og skiljanleg hræðsluefni gæti ég talið hér upp.

Það er ekkert vit í því að reigja sig og segjast hvergi hræddur, þegar lýðveldið sjálft er í þeirri hættu að verða gleypt af stórveldi. Við skuldum forfeðrum og formæðrum okkar það öll að standa vörð um sjálfstæði landsins.

Nánari rök fyrir þessu get ég fært, ef óskað er eða ef ég verð rengdur um það, sem ég hef skrifað hér.

Jón Valur Jensson, 17.7.2010 kl. 14:56

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

"Gæti skýringin verið sú að þegar aðildarviðræður hefjast muni almenningur komast að því að með aðild myndu Íslendingar öðlast lágt vöruverð stöðugan gjaldmiðil og lága vexti og losna við verðtrygginguna í leiðinni."

Þetta er einmitt málið - almenningur mundi sjá nýja leið fyrir sín mál.

Dómar Hæstaréttar hafa líka vakið rækilega athygli á þeim óskaplega mun sem er á lánskjörnum hér og á ESB svæðinu. Fólk er aðeins byrjað að sjá toppinn á ísjaknum og allt er gjörsamlega brjálað.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.7.2010 kl. 15:05

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ég hef engar áhyggjur af þjóðaratkvæði um Evrópusambandið hvenær sem það færi fram. Hins vegar erum við ekki í einhverjum aðildarviðræðum heldur aðlögunarferli að sambandinu. Það þýðir að þegar við fáum loks að kjósa um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki verður búið að aðlaga íslenzkt þjóðfélag meira eða minna að stofnanakerfi og regluverki sambandsins án þess að við höfum getað sagt álit okkar á því - nema í bezta falli eftir á.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.7.2010 kl. 15:38

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Jón Valur

Er sjálfur áróðursmeistarinn hræddur við áróður. Málið er að stuðningsmenn um aðildarviðræður  hafa ekki verið með neinn áróður. Þeir vilja einfaldlega aðildarviðræður við ESB og vilja ekki láta taka frá sér þann sjálfsagða lýðræðislega rétt að fá að kjósa um væntanlegan samning. Svo einfalt er það.

Andstæðingar ESB vilja hins vegar , eins og þú lýstir ágætlega, hafa vit fyrir fólkinu og beina því í farveg einangrunar og fátæktar.

Gott dæmi í áróðursherferð ESB andstæðinga sem þú lýstir einnig vel er að segja að verið sé að innlima Ísland í hræðilega ófreskju. Auðvitað er ekkert fjarri sanni. ESB er samvinna fullvalda ríkja á grundvelli samninga. Eins og kunnugt erþá eru þar Svíar , Danir og Finnar sem þegar hafa gengist undir hina hræðilegu innlimun. Ekki er til heimskulegri áróður.

Með hliðsjón af þínum útleggingum þá virðist sá munur helstur á ESB andstæðingum  og þeim sem vilja fara í aðildarviðræður að ESB andstæðingar treysta ekki fólkinu í landinu til að greða "rétt" atkvæði í væntanlegri þjóðaratkvæðageiðslu og því sé best að fara í engar viðræður. Hinir sem vilja aðildarviðræður treysta hins vegar fólkinu til að gera það sem rétt er með eða á móti.

Er ekkí vafa um í hvaða flokki flestir hugrakkir íslendingar vilja vera. Þeir þora í aðildarviðræður og þeir þora í þjóðaratkvæðagreiðslu

Fólk vill svör við einföldum spurningum en það vii ekki endalausan áróðursvaðal. Mun vöruverð lækka við ESB aðild? Munu vextir lækka? Mun verðtryggingin vera aflögð?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 17.7.2010 kl. 16:02

6 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Hjörtur

 Aðlögunarferli að sambandinu en ekki aðildarviðræður. Hvaða snillingur fann þetta "aðlögunaferli" upp. Áróðurstilburðir og hræðsluáróður virðast vera ær og kýr andstæðinga ESB. Það er rétt hjá þér að við höfum nú þegar tekið upp í okkar löggjöf  vegna EES  samningsins stóran hluta tilskipana ESB.

Það má ekki rugla því saman við aðildarviðræður við ESB. Þar fáum við að greiða atkvæði um væntanlegan samning um aðild að ESB

Þórdís Bára Hannesdóttir, 17.7.2010 kl. 16:48

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Þórdís, en ég hlýt að spyrja: hafa "stuðningsmenn um aðildarviðræður" í alvöru "ekki verið með neinn áróður"? Ekki t.d. Evrópusamtökin, sískrifandi um þetta mál (margfalt oftar en ég t.d.), Ólafur Stephensen ritstjóri, Eiríkur Bergmann Einarsson, Þorsteinn Pálsson, Sveinn Andri Sveinsson, forsvarsmenn samtaka atvinnulífsins og jafnvel ASÍ-menn, tekurðu ekkert eftir áróðrinum? Ég gæti nefnt hér ýmsa Moggabloggara, sem skrifa með enn áróðurskenndari brag, s.s. Steina Birem, Magnús Helga Björgvinsson, Ómar Bjarka Kristjánsson og Jón Frímann Jónsson. En er áróður kannski í þínum augum bara það, sem þú sjálf ert ekki samþykk?

Ég hygg það séu fáir meðal sjálfstæðissinna sem tali um Evrópubandalagið sem "hræðilega ófreskju", það geri ég t.d. ekki, þótt ég sjái alveg stórveldistilburði fyrirbærisins.

Þessi frýjunarorð um, að við fullveldissinnar "þorum" ekki einhverju, sem ÞIÐ innlimunarsinnar "þorið", eru máttlaus sem rök í málinu. Enginn þjóðhollur maður skilur fjöregg þjóðar sinnar eftir á glámbekk, en ég viðurkenni, að mörg ykkar átta sig ekki á alvöru þess, sem hér er verið að gera.

Þú skrifar: "Fólk vill svör við einföldum spurningum en það vii ekki endalausan áróðursvaðal. Mun vöruverð lækka við ESB aðild? Munu vextir lækka? Mun verðtryggingin vera aflögð?" – Þú losnar ekki við dýra aðflutninga til fjarlægs lands, Þórdís! Ekki heldur við hærra vöruverð í smæri markaði. Svo dr fráleitt að búast við einhverju meðalverði ESB-þjóða hér – Austur- og Suður-Evrópulöndin búa við miklu lægra verðlag heldur en öll Norðvestur-Evrópa, og þau fyrrnefndu draga ESB-meðalverðið" mjög niður, þannig að það er óraunhæft til samanburðar.

Vaxtamálin hér má laga t.d. með lægri stúrivöxtum; að halda að háir stýrivextir lækki verðbólgu er meinloka hagfræðinga; hærri vextir í landinu auka einmitt á hærri ávöxtunar- eða gróðakröfu atvinnurekenda, t.d. kaupmanna, og hækkar því verðlag og verðbólgu! Hér þarf ekkert ESB til aðstoðar, bara að velta mönnum úr stólum!

En "venjulegt fólk" vill líka svör við því, hvort Íslendingar haldi fullveldi sínu og æðsta löggjafarvaldi, hvort við fáum að halda yfirráðum yfir fiskveiðilögsögu okkar og aflaheimildum (svarið er NEI), hvort okkur leyfist t.d. áfram að veiða hvali, seli og hákarl (svarið er hábært NEI!) og hvort yfir okkur leggist þungur hrammur reglugerðarveldis við inngöngu/innlimun (svarið er JÁ! – sbr. margra klst. skriffinnsku í hverri viku, sem lögð var á finnska bændur, þegar þeirra land gekk í þetta gímald).

Mikilvægast af þessu öllu er missir æðsta löggjafarvalds, því að það gefur bandalaginu (ESB) lykilinn að öllum völdum, breytingum og tilfæringum allra hluta á komandi áratugum.

Þar að auki er faktískt ómögulegt að ganga úr bandalaginu (einmitt skv. Lissabon-sáttmálanum), ef ráðandi öfl þar vilja það ekki.

Jón Valur Jensson, 17.7.2010 kl. 17:20

8 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Jón Valur

Í svari mínu sagði ég að fólk vildi svör við einföldum spurningum.

Mun vöruverð lækka?

Munu vextir lækka?

Mun verðtryggingin verða aflögð?

Þú bætir réttilega við spurningunni. Hvenig verður fiskveiðistjórnunarkerfið samfara aðild að ESB?

Þú reynir eftir bestu getu að svara þessum spurningum og hefur örugglega sett þig inn í þessi mál að einhverju leyti.

Það sem okkur greinir á er að það er ekki nóg að þú eða einhverjir ESB andstæðingar svari þessum spurningum "fyrir" okkur

Við viljum einfaldlega fara í viðræður við ESB og fá svar við þessum spurningum milliliðalaust. Væntanleg drög að samningi yrði síðan borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 17.7.2010 kl. 17:52

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Þórdís, það virðist skynsamlega hugsað. En í því birtist líka sú vanhugsun, að þú lætur þér sjást yfir, að við gátum alveg farið í könnunar- og kynningarviðræður við fyilltrúa Evrópubandalagsins án þess að sækja fullum fetum um "aðild". Nú (tæpu ári eftir umsóknina) stendur fyrst og fremst yfir kostnaðarsamt aðlögunarferli, sem leggst þungt á íslenzka stjórnsýslu, þar sem starfsmenn ráðuneyta hafa ærin verkefni önnur vegna áhrifa kreppunnar (og þyrfti reyndar að fækka líka, sem partur af aðkallandi samdrætti ríkisútgjalda), en á viðræðunum sjálfum bólar lítt ennþá!

Ragnar Arnalds hefur ítrekað (t.d. í frábæru viðtali á Útvarpi Sögu fyrir um 9–10 dögum og í Kastljósþætti í Sjónvarpi fyrir rúmu ári) bent á, að við gátum vel farið fram á slíkar könnunarviðræður, t.d. í Skotlandi, hann hefði ekkert haft á móti því (og ekki ég heldur) til að við fengjum formlega upplýst, hvað bandalagið teldi sig geta boðið okkur. En það vildi Samfylkingin ekki, hún vildi einfaldlega keyra á inngönguumsókn. Þar tel ég, að hún hafi ekki látið íslenzka þjóðarhagsmuni ráða, og enginn efi er á því í mínum huga, að hinir sérfróðustu á snærum hennar (t.d. í utanríkisráðuneytinu) vissu vel, að með formlegri umsókn væri verið að flækja Íslendinga á þann veg inn í þetta "ferli", að það myndi stórauka líkurnar á því, að ekki yrði aftur snúið með það; ákvörðunin að hafna einföldum könnunarviðræðum hafi því verið meðvituð.

Ég tek eftir, að fram að þessu hefur þú í engu svarað ábendingum mínum um gríðarlegan fjáraustur Brusselmanna í áróðurs- og kynningarherferð í Tékklandi stuttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. En einmitt það var einn anginn af því flókna ferli, sem fór í gang með formlegri umsókn Tékkanna. Til að svara mér óbeint bentir þú á áróðursstarf "ESB-andstæðinga" hér á landi (við erum reyndar réttnefndari andstæðingar inngöngu/innlimunar í ESB), en þótt það séu vissulega rök í þínu máli, þá eru þau léttvæg og fánýt í samanburði við þá áróðursherferð, sem ég og margir gera ráð fyrir að hefjist hér með haustinu (fulltrúar ESB hafa þegar tjáð vonbrigði sín með frammistöðu jámanna þeirra hér á Íslandi og sagt, að bandalagið verði sjálft að gera sínar eigin ráðstafanir vegna þess).

Í Tékklandi var margfalt meira fé varið í áróður með inngöngu heldur en á móti. Ég efast ekki um, að það sama eigi við hér nú þegar, ef talinn er með kostnaður bandalagsins á umliðnum árum við að bjóða fulltrúum ráðuneyta og stjórnarstofnana, atvinnurekenda og verkalýðsfélaga, annarra félagasamtaka, menningargeirans og fjölmiðla (nú síðast blaðamanna og bloggara) til Brussel (flugferðir og hótelkostnað) til að "kynna" þessu fólki starfsemi, málstað og meinta yfirburði og kosti bandalagsins.

Og tékkneska dæmið var ekki einangrað. Mikill fjáraustur (en varla jafnmikill) var til Noregs og Svíþjóðar til áróðurs fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í þeim löndum.

Þess vegna virðist mér, Þórdís Bára, að þau orð þín hér ofar séu skrifuð í allnokkru tómarúmi (þ.e. án tillits til þessara ytri, skekkjandi aðstæðna), þar sem þú kveður þá, "sem vilja aðildarviðræður treysta [...] fólkinu til að gera það sem rétt er, með eða á móti."

Ég treysti yfirleitt fólki, en ég treysti ekki fjölmiðlum og áhrifamönnum blindandi, og við erum eflaust sammála um, að oft hefur mönnum í kosningabaráttu, m.a. í krafti peningaveldis, tekizt að knýja fram kosningaúrslit, sem voru okkur engan vegin hugnanleg og við litum á sem ranglát og reyndust jafnvel í ljósi síðari reynslu verða þjóðinni sízt til farsældar.

Þess vegna á ekki vel við að flagga kjörorðinu "Treystum fólkinu!" við svo óvenjulegar aðstæður, sem hér er við að glíma. Við myndum ekki segja: "Treystum peningaveldinu að baki frambjóðendum í prófkjörum og til þings og sveitarstjórna!" – en í reynd getur fyrrnefnda kjörorðið einmitt falið þetta síðarnefnda í sér!

Við erum fámenn þjóð. Bandalag þjóða, sem eru nál. 1550 sinnum fjölmennari en við, á í fullu tré við okkur áróðurslega séð, þegar tekið er tillit til fjárausturs í "kynningar-" og áróðursstörf. Hér er því margt að varast, og nú á næstu mánuðum ríður á, að þjóðhollir menn verði á varðbergi; þótt við höfum ekki mikið fé handa á milli, höfum við þó sjálf okkur, tíma okkar, skynsemi og lifandi hugsjón að reynast landi okkar vel, og við þurfum að sýna það í verki með framlagi okkar til umræðna um þetta mál á hvaða vettvangi sem við höfum á því færi.

Jón Valur Jensson, 17.7.2010 kl. 21:41

10 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þórdís. Svörin við þessum spurningum þínum eru eftirtalin, sérstaklega ef litið er til reynslu annara ríkja sem hafa gengið í ESB á síðustu árum. Í þessu tilliti ætla ég að miða við Finnland, en ég þekki áhrifin af inngöngu þess í ESB langbest af þeim ríkjum sem gengu inn í ESB árið 1995. Það er Finnland, Svíþjóð og Austurríki.

#1: Í Finnlandi lækkaði vöruverð að jafnaði um 20% eftir inngöngu í ESB. Verðlækkunin varð auðvitað mismunandi eftir vöruflokkum eins og gengur og gerist. Hérna er nýleg grein um áhrif ESB aðild Finnlands.  Þetta er ekki löng grein, og hefur ekki tæmandi upplýsingar um málefnið.

#2: Vaxtastefnan verður á Íslandi svo lengi sem íslendingar verða með krónuna sem gjaldmiðil. Gildir þá einu þó svo að krónan verði beintengd við evruna á föstu gengi. Það sem mun þó líklega gerast við fastgengisstefnu er að það mun líklega skapast ráðrúm til þess að lækka stýrivexti, þá í þeim tilgangi að uppfylla upptökuskilyrðin fyrir evruna eins og þau eru í dag. Þar sem íslendingar munu ekki fá neinar undanþágur frá þeim skilyrðum eins og þau eru í dag. Þá sérstaklega vaxtalega og verðbólgulega séð. Niðurgreiðsla skulda gæti leitt til þess að íslendingar fengu að taka upp evruna þó svo að skuldir væru ennþá hærri en viðmiðin segja til. Þar gæti þó brugðið til beggja vona í þeim efnum.

#3: Verðtryggingin samræmist ekki efnahagsstefnu og peningastefnu ESB, og mun því verða aflögð við aðild Íslands að ESB. Þá væntanlega með einhversskonar aðlögunartímabili tel ég. Þó verður bara að koma í ljós hvernig nálgunin verður á þetta verðtryggingarvandamál á Íslandi.

Ég vona að þetta svari einhverjum af þínum spurningum. Svörin eru auðvitað ekki tæmandi, og verða það líklega aldrei.

Jón Frímann Jónsson, 17.7.2010 kl. 22:18

11 identicon

Sæl Þórdís

Svona til að svara spurningunni um það hver fann upp „aðlögunarferlið“, þá var það Evrópusambandið sem gerði það.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 14:59

12 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Andstæðingar ESB á Íslandi láta eins og það sé nýtt að nýtt aðildarríki þurfi að taka upp lög ESB. Það er ekki raunin. Staðreyndin er einfaldlega sú að þetta hefur alltaf verið svona, og hefur alltaf legið fyrir.

Hérna er vefsíða ESB um stækkunina og hvað umsóknarríki þurfa að taka upp af lögum ESB beint til þess að geta orðið aðildar að ESB. Af þessum lagaköflum sem þarna eru nefndir eru íslendingar búnir að taka upp uþb 50%, eða 2/3 hluta þeirra. Það sem íslendingar eru ekki búnir að taka upp eru kaflar sem EES samningurinn nær ekki til. Þar ber helst að nefna fiskveiðar, landbúnaðar, byggðarstefnu og fleiri atriði. Hvað íslendingar eru búnir að taka upp í dag er að hægt að kynna sér hérna (wiki grein).

Jón Frímann Jónsson, 19.7.2010 kl. 17:23

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Íslenzk stjórnvöld yrðu að samþykkja, að hvar sem lög þessa lands brjóta í bága við lög Evrópubandalagsins, þar skuli lög hins síðarnefnda ráða! Með orðum þess sjálfs í aðildarsamningum (inngöngusáttmálum) allra nýrra meðlimaríkja: "Community law [lög Evrópubandalagsins] takes precedence over [hafa forgang fram yfir] any national provisions which might conflict with it [hvaða ráðstafanir meðlimaríkjanna sem er, þær sem kunna að vera í ósamræmi við fyrrnefnd lög ESB]." Nánar hér: Réttinda-afsalið sem yfirlýst og staðfest yrði með aðildarsamningi (accession treaty) við Evrópubandalagið.

Evrópubandalagspredikarar eiga ekki að láta sér sjást yfir aðalatriði máls.

Jón Valur Jensson, 20.7.2010 kl. 00:00

14 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Jón Valur.  Legg til að þú kynnir þér EES samninginn og hvaða þýðingu hann hefur fyrir okkur og hvaða afleiðingar hann hefur haft. Afleiðingarnar eru þær m.a.að við höfum tekið í okkar löggjöf u.þ.b. 70% af tilskipunum ESB. Gott dæmi um þetta eru raforkulögin sem samþykkt voru árið 2005 á Alþingi Íslendinga þar sem nákvæmlega er kveðið á um það að framleiðsla og sala orku skuli undir engum kringumstæðum vera á höndum ríkisins.  Nú árið 2010 er fólk ennþá að þrasa um eitthvað óréttlæti sem sett var í lög fyrir 5 árum síðan. Þar er nákvæmlega skilgreint að orkulindirnar séu í eigu þjóðarinnar en framleiðsla og sala á orku eiga að vera í höndum samkeppnisaðila innlendra eða erlendra.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 20.7.2010 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband