Hvað er Ögmundur eiginlega að hugsa?

Furðulegur pistill hjá Ögmundi Jónassyni.  Hvað er maðurinn að meina? Kallar hann það þjóðarhag að stefna landinu í einangrun og stórfellt atvinnuleysi og stoppa þjóðfélagið endanlega. Koma því á kaldan klakann.

Til að halda uppi hagvexti í landinu vita allir sem vilja vita að megin forsenda fyrir því er að hafa gott samstarf við vinaþóðir okkar bæði Norðurlanda þjóðir og aðrar Evrópuþjóðir. 

Þó að það sé erfitt að taka á sig þessar byrðar þá er það engu að síður staðreynd að við komum okkur sjálf í þessa erfiðleika og eigum að vera menn til þess að viðurkenna það og standa við samninga sem við gerðum við þessar þjóðir s.l. haust í staðinn fyrir að hrópa ó og æ við viljum ekki borga. 

Staðreyndin er nefnilega sú að ef við fellum þetta samkomulag þá er alls ekki þar með sagt að við sleppum við að borga þvert á móti munum við þurfa að borga miklu meira. 

Sem ábyrgur stjórnmálamaður hlýtur Ögmundur að endurskoða afstöðu sína ef hann vill þjóðinni vel sem hann auðvitað vill.  Ögmundur þarf að falla frá einangrunarstefnu sinni og hugsunarhætti Bjarts í Sumarhúsum sem á ekki heima í nútímasamfélögum.


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Úps.. þetta var nú högg fyrir neðan beltisstað Þórdís Bára! Ögmundur átti þetta ekki skilið frá þér, finnst mér. Hvað er að því að ráðherra hugsi fyrst og fremst um þjóðarhag?

Jón Baldur Lorange, 22.7.2009 kl. 00:42

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

þórdís Bára. Treystir þú þér til að borga? Borga miklu meira segir þú! það vita allir að við getum ekki borgað þetta, hvað þá miklu meira. Hvers vegna ert þú ekki sammála Ögmundi núna? Vilt þú bara afhenda Ísland með manni og mús til ESB? Og hvað svo? Við eigum alla möguleika á að vinna okkur út úr vandanum. gjaldeyrir syndir hér allt í kringum landið!

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.7.2009 kl. 01:17

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.7.2009 kl. 02:01

4 Smámynd: Arnmundur Kristinn Jónasson

Þórdís Bára!

Ekki veit ég hvað þú hefur á samviskunnu, en ég get fullvissað þig um að ég og mínir komum okkur ekki sjálf í þessa erfiðleika.  Mér þykir leitt, fyrir þína hönd, ef þú berð einhverja ábyrgð á hruninu. Hins vegar þykist ég vita að svo er ekki, þú átt bara eftir að sjá hlutina í réttu ljósi.

Arnmundur Kristinn Jónasson, 22.7.2009 kl. 02:42

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Ert þú ekki hluti af þjóðinni Arnmundur eins og ég.  Voru það ekki eftirlitsstofnanir og stjórnvöld sem brugðust, fulltrúar þjóðarinnar?.  Hélt að lesendur myndu skilja þetta:)

Þórdís Bára Hannesdóttir, 22.7.2009 kl. 11:04

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Aðalatriðið er þetta: Þessi svokölluðu stjórnvöld og eftirlitsstofnanir, sem þú nefnir svo, upplýstu okkur - þjóðina - ekki um ábyrgð okkar á Icesave skuldbindingum fyrir kosningar 2007, né fyrir hrunið, svo ég viti til. Þessu var haldið leyndu innan þessa hóps eða þá að þessi ríkisábyrgð var aldrei til, enda er verið að ganga frá henni núna eftir á! Landsbankinn var seldur án ríkisábyrgðar - líka á innstæðum útibúa hérlendis og erlendis - tryggingasjóðurinn átti að bæta það. Þeir sem bjuggu til lögin í ESB höfðu greinilega ekki gert ráð fyrir allsherjarhruni bankakerfið í einu landi og það er galli, sem ótækt er að láta eina smæstu þjóð veraldar taka ábyrgð á og borga bara sí svona. Það er mergurinn málsins Þórdís Bára.

Jón Baldur Lorange, 22.7.2009 kl. 12:24

7 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Kæru Anna Sigríður og Jón Baldur. Seðlabankinn er hlutlaus og sjálfstæð stofnun með 100 starfsmenn og sérfræðinga á hverju strái.  Þeir gáfu út þá afdráttarlausu yfirlýsingu í síðustu viku að við myndum mjög vel ráða við afborganir af Icesave láninu og var það byggt á ákveðnum forsendum um endurheimtu á eignum Landsbankans. Ég leyfi mér að trúa þessu sérfræðiáliti Seðlabankans. Hverjum eigum við að trúa?  Allir eru að hrópa skuldirnar svo miklar. Eiga allir landsmenn að fara að reikna og reikna og fá 300 þús niðurstöður.  Einhverstaðar verðum við að stoppa að mínum dómi og byggja okkar álit á útreikningum færustu séfræðinga. 

Jón Baldur ég var ekki að leggja til Ögmundar hvorki fyrir ofan eða neðan beltisstað. Hins vegar er ég algjörlega ósammála honum hvað sé þjóðarhagur í þessu máli. Lítum á örfáar staðreyndir.  Við sömdum við Breta og Hollendinga s.l. haust að við myndum ekki fara svokallaða dómstólaleið í þessu máli heldur ætluðum við að ná samkomulagi.   Gert var Minnisblað í þessu sambandi sem allir skrifuðu undir og Árni Mathiesen fyrir okkar hönd.  Allt tal um dómstólaleið núna 10 mánuðum seinna er því algjörlega útí hött.

Þó Landsbankinn hafi verið einkafyrirtæki þá er þetta klúður okkur að kenna vegna þess að íslenska Fjármálaeftirlitið sem brást í þessu máli er fulltrúi þjóðarinnar í þessum efnum.  Það er ríkisstofnun undir forræði Viðskiptaráðuneytisins sem er hluti af framkvæmdarvaldinu sem við höfum óbeint kosið til að fara með þessi mál fyrir okkur.

Gagnrýni mín á Ögmund byggist hins vegar aðallega á því að hann virðist ekki skilja til fulls hvað gerist ef við skrifum ekki undir samninginn.  Þetta snýst ekki síst um erlendan gjaldeyri.  AGS og Norðurlandaþjóðirnar ætla að lána okkur gjaldeyri en hafa sett það skilyrði beint eða óbeint að við göngum frá Icesave samningnum fyrst. Gerir Ögmundur sér grein fyrir því hvað gerist ef við fáum ekki gjaldeyri til lansins innan örfárra mánaða.  Þá mun allt stoppa endanlega.  Jafnvel stöndugustu fyrirtæki munu verða að hætta rekstri vegna þess að þau geta ekki endurfjármagnað sig vegna þess að þau fá engan gjaldeyri til að borga af erlendu lánunum sínum og því síður að þau fái erlend lán.  Ef þau geta ekki borgað af erlendu lánunum sínum munu þau verða gjaldfelld jafnvel þó fyrirtækin eigi ógrynni fjár af ísl kr. á ísl.bankareikningum. Útflutningurinn getur ekki bjargað þessum málum því við notum stærstan hluta þess gjaldeyris sem hann skapar til innflutnings á almennum neysluvörum olíu og svo frv.

Niðurstaðan yrði því sú að hér yrði atvinnuleysi af stærðargráðu sem við viljum ekki vita um. Þannig er nú það Jón Baldur.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 22.7.2009 kl. 13:53

8 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Allt þetta skil ég vel Þórdís Bára. En er þá niðurstaða þín sú að við, þjóðin, eigum að borga þegjandi ,,skuld einkaaðila", þó að það sé ekki réttlátt, vegna þess að annars refsa ,,stóru" þjóðirnar okkur grimmilega? Svona eins og að horfa upp á gömlu konuna reiða fram allt spariféð sitt til að greiða skuld fjárglæframannsins í næsta húsi, með handrukkarann yfir sér með hnefann á lofti?

Um þetta snýst Icesave málið.

Jón Baldur Lorange, 22.7.2009 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband