Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.1.2008 | 20:43
Frumlegt og sniðugt.
![]() |
Konur bjóðast til að setjast í stjórnir fyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2008 | 10:09
Úr öskunni í eldinn.
Hef verið að lesa viðtölin við nýja borgarstjórann af miklum áhuga. Eftir þann lestur allan er mér orðið ljóst að nú fyrst eru sjálfstæðismenn komnir í mikil vandræði sem voru þó næg fyrir.
Það er ekki nóg að flokkurinn sé í sárum vegna REI málsins eins og kom fram í nýlegu viðtali við einn borgarfulltrúa þeirra heldur hefur nú bæst við annað og ennþá meira vandamál.
Það nefnilega alveg ljóst af viðtölum við nýja borgarstjórann að nú er stund hefndarinnar runnin upp. Sjálfstæðismenn hafa haft þennan mann í flimtingum undanfarin ár og niðurlægt hann og hans skoðanir á allan hátt þannig að hann sá þann eina kost í stöðunni að segja sig úr flokknum og fara í sér framboð.
En nú er komin nýr dagur nú skulu sjálfstæðismenn sitja og standa eins og hann boðar. Nú skal framkvæma alla sérviskuna sama hvað það kostar. Þannig hefur staða sjálfstæðismanna í borgarstjórninni breyst úr því að vera slæm í það að vera skelfileg.
Fram hefur komið að þeir áttu frumkvæðið að því að koma sér í þessi vandræði. Menn hafa verið að vorkenna nýja borgarstjóranum fyrir það að hafa verið plataður til samstarfs en nú er orðið ljóst að þessu er þveröfugt farið. Hann er sterki maðurinn í þessu máli og í raun sá sem plataði sjálfstæðismennina til þess að framkvæma allar þær tillögur í borgarmálum sem þeir hafa alltaf verið algjörlega á móti. Nú þegar hafa sjálfstæðismenn aðeins séð byrjunina af því sem koma skal.
27.1.2008 | 00:20
Sjálfstæðismenn úr öskunni í eldinn.
Hef verið að lesa viðtölin við nýja borgarstjórann af miklum áhuga. Eftir þann lestur allan er mér orðið ljóst að nú fyrst eru sjálfstæðismenn komnir í mikil vandræði sem voru þó næg fyrir.
Það er ekki nóg að flokkurinn sé í sárum vegna REI málsins eins og kom fram í nýlegu viðtali við einn borgarfulltrúa þeirra heldur hefur nú bæst við annað og ennþá meira vandamál.
Það nefnilega alveg ljóst af viðtölum við nýja borgarstjórann að nú er stund hefndarinnar runnin upp. Sjálfstæðismenn hafa haft þennan mann í flimtingum undanfarin ár og niðurlægt hann og hans skoðanir á allan hátt þannig að hann sá þann eina kost í stöðunni að segja sig úr flokknum og fara í sér framboð.
En nú er komin nýr dagur nú skulu sjálfstæðismenn sitja og standa eins og hann boðar. Nú skal framkvæma alla sérviskuna sama hvað það kostar. Þannig hefur staða sjálfstæðismanna í borgarstjórninni breyst úr því að vera slæm í það að vera skelfileg.
Fram hefur komið að þeir áttu frumkvæðið að því að koma sér í þessi vandræði. Menn hafa verið að vorkenna nýja borgarstjóranum fyrir það að hafa verið plataður til samstarfs en nú er orðið ljóst að þessu er þveröfugt farið. Hann er sterki maðurinn í þessu máli og í raun sá sem plataði sjálfstæðismennina til þess að framkvæma allar þær tillögur í borgarmálum sem þeir hafa alltaf verið algjörlega á móti. Nú þegar hafa sjálfstæðismenn aðeins séð byrjunina af því sem koma skal.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2008 | 21:31
Að plata sjálfan sig.
Aldrei fyrr í Íslandssögunni og sennilega hvergi í víðri veröld hefur verið gerð eins hallærisleg og lágkúruleg hallarbylting eins og gerðist í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Það var ekki nóg að þessi höfuðsnillingur Ólafur Magnússon hefði blekkt sína samstarfsflokka á ótrúlega ómerkilegan hátt. Það sem nýtt er í málinu og á sér hvergi fordæmi er að hann blekkti einnig sína nánustu samstarfsmenn í sínum eigin flokki og hlýtur það að vera heimsmet í klókindum.
Þannig tókst honum af mikilli snilld með góðri aðstoð Villa að plata sjálfan sig þannig að ómögulegt er fyrir hann að vita í hvora löppina hann á að stíga.
Svona hringavitleysa getur ekki endað nema á einn veg og það fyrr en síðar.
11.1.2008 | 19:38
Ljótt að plata.
![]() |
Hitti konuna í vændishúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2008 | 21:56
Er Morgunblaðið blað allra landsmanna?
Ég kaupi Morgunblaðið þó ég sé ekki sjálfstæðiskona. Ég eins og mjög margir landsmenn hef litið þannig á að Morgunblaðið sé blað allra landsmanna. Vandað fréttablað með sjálfstæðar skoðanir sem hafa oft fallið að skoðunum venjulegra Íslendinga. Það hefur verið styrkur blaðsins eins og fjöldi áskrifenda ber með sér. Auðvitað vita allir að Morgunblaðið styður viðhorf sjálfstæðismanna en sá stuðningur hefur samt sem áður ekki verið bundinn við þrönga flokkshagsmuni.
Upp á síðkastið hefur mér samt fundist að Morgunblaðið væri að færast aftur í gamla kaldastríðs farið. Þar vil ég sérstaklega nefna Staksteina sem ku vera á ábyrgð ritstjórnar blaðsins. Í Staksteinum í morgun var t.d. ráðist með mjög óvönduðum hætti að Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra fyrir það að hafa skipað karlmann í stöðu orkumálastjóra. Ekki var gerð tilraun til að meta umsækjendur málefnalega heldur reynt að notfæra sér þetta mál á lágkúrulegan hátt svo ekki sé meira sagt. Þetta minnti helst á umræðurnar í heitu pottunum í sundlaugunum þar sem ýmislegt er látið fjúka.
Þarna var á blygðunarlausan hátt verið að ráðast á Samfylkinguna vegna þess að hún hefur stutt jafnrétti kynjanna. Ef Morgunblaðið heldur áfram svona ómálefnalegri umfjöllun og einstrengingslegum áróðri gegn öðrum en Sálfstæðisflokknum þá einfaldlega hættir Morgunblaðið að vera blað allra landsmanna með þeim afleiðingum sem því fylgir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2008 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2007 | 16:26
Kryddsíldin.
Ekki verður það af Guðna skafið að hann getur verið mjög fyndinn. Hann sagði að hann hefði verið öskubuska Framsóknarflokksins og þegar til kastanna kom þá passaði gullskórinn bara á hann og því sæti hann nú sem virðuleg maddamma og formaður Framsóknarflokksins. Það er hins vegar spurning hvort þessi góði húmor Guðna dugi honum til að hann haldi formannsembættinu til lengdar.
Annað sem mér fannst standa upp úr er hugrekki Ingibjargar Sólrúnar þegar hún bar stjórnarsamstarfið saman við sitt eigið hjónaband. Þar sagði Ingibjörg að gott stjórnarsamstarf byggðist á því að hver flokkur fengi að halda sérkennum sínum í stað þess að annar flokkurinn væri sífellt að troða sínum skoðunum upp á hinn. Nákvæmlega þetta er kjarni málsins menn þurfa að hafa pólístískt hugrekki til að hlutirnir gangi upp t.d lýsti hún því óhikað yfir að hún væri í pólítík vegna velferðarmálanna þó að hún vissi auðvitað að þetta væri ekki nákvæmlega það sem Geir Haarde vildi heyra.
Að lokum óska ég bloggvinum og öðrum vinum nær og fjær gleðilegs árs með þökk fyrir það liðna.
23.12.2007 | 16:02
Spilling við skipan héraðsdómara á norðurlandi.
Núna rétt fyrir jólin hafa landsmenn orðið vitni að alvarlegri spillingu af hálfu sjálfstæðismanna.
Árni Mathiesen hefur skipað son Davíðs Oddssonar í stöðu héraðsdómara þrátt fyrir að honum hafi verið raðað í flokk nr 3 þegar metin var hæfni umsækjenda. Gengið var freklega framhjá mun hæfari umsækjendum sem matsnefndin taldi mjög hæfa til starfsins.
Þetta væri útaf fyrir sig álitamál ef álitsnefndin væri skipuð af einhverjum viðvaningum. En það er alls ekki raunin eins og sjálfstæðismenn vita manna best. Formaður nefndarinnar sem stóð að baki hæfnismatinu er engin annar en Pétur Hafstein sem engum dettur í hug að væna um óvönduð vinnubrögð. Þvert á móti er hér um að ræða einn vandaðasta lögmann landsins og fyrrverandi hæstaréttadómara sem auðvitað tók tillit til allra atriða sem máli skipta þ.m.t. þá þekkingu sem viðkomandi aðili hafði aflað sér með störfum sínum í dómsmálaráðuneytinu.
Niðurstaðan er því sú að hér er um hreinræktaða spillingu að ræða sem ömurlegt er að verða vitni að.
Samfylkingin hlýtur að taka þetta mál upp í ríkisstjórninni en spilling af þessu tagi getur hæglega slitið stjórnarsamstarfinu.
16.12.2007 | 18:37
Markaðslögmálin gilda ekki þegar laun kvenna eru annars vegar.
Mikið væri ég stolt yfir að vera kölluð öfgafeminsti eins og þær eru kallaðar sem standa í eldlínunni í réttindabaráttu kvenna. Ég læt hins vegar nægja að vera bara sófeminsti sbr. kaffihúsaspjallari fylgist með þeim úr fjarlægð sem slíkan titil hafa og þakka þeim það sem ávinnst.
Sem áhugamanneskja um kvennabaráttu og launajafnrétti greini ég frá að gamni mínu smá fróðleik frá jafnréttis- og jafnaðarlandinu Danmörku. Þar í landi starfa 9 konur af hverjum 10 starfsmönnum við umönnun aldraðra hjá því opinbera, flestir þeirra faglærðir. Mikil eftirpurn er eftir þessu starfsfólki en samt sem áður eru launin hjá þeim lægri en laun karlmanna sem starfa á öðrum sviðum samfélagsins þar sem ekki vantar starfsfólk (heimild: Jytte Larsen, forskningsstipentiat i Kvinfo). \u001fÞarna virðist sem sagt markaðslögmálið ekki virka.
Fullyrða má að svona er þetta líka á Íslandi. Um þetta m.a. snýst kvennabaráttan (feminisminn). Að laun fyrir hefðbundin kvennastörf verði sambærileg við laun karla í sambærilegum störfum hvað varðar menntun og atgerfi.
Hverjir eru það sem standa í vegi fyrir því að hefðbundin kvennastörf eru ekki launuð á sama hátt og hefðbundin karlastörf? Það þarf að heyrast meira í kvenréttindakonum (feministum) um stöðu láglaunakvenna í stað þess að fjalla að mestu leyti um stöðu kvenna við stjórnunarstörf.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007 | 20:21
Hjartaáfall í dag eða á morgun.
Furðuleg frétt var í sjónvarpinu í gærkvöldi. Maður sem búið er að úrskurða að þurfi hjartaaðgerð strax hefur nú beðið í 15 daga á spítala milli vonar og ótta um að hann fái ekki hjartaáfall áður en röðin kemur að honum í uppskurð.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta ástand það er gjörsamlega ótækt.
Í sama fréttatíma var talað um að afgangur af fjárlögum ársins 2008 stemmdi í milljarða tugi. Hvers vegna í ósköpunum er ekki einfaldlega hægt að hafa þessa hluti í lagi.
Við sem borgum skatta og sköpum þennan milljarða afgang á fjárlögum eigum hreinlega heimtingu á að þessum málum verði komið í lag eins og skot.
Heilbrigðisráðherrann ungi verður að hysja upp um sig buxurnar og grípa til aðgerða strax á morgun. Ef hann hefur ekki kjark og þor til þess á hann að segja tafarlaust af sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.12.2007 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)