Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.1.2010 | 11:12
Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvað.
Eftir að Icesavemálið var samþykkt á Alþingi treysta andstæðingar Icesavelaganna því að forsetinn komi þeim til bjargar.
Allur málatilbúnaður þeirra byggir á ómerkilegu áróðursbragði til að blekkja þá sem ekki hafa haft kost á því að kynna sér málið til hlítar.
Menn segja t.d. ,,hvers vegna eigum við að borga skuldir einkafyrirtækja" eða ,,hvers vegna eigum við að borga skuldir nýlenduríkjanna Bretlands og Hollands" allt er þetta sagt til að blekkja fólk. Auðvitað vill enginn borga. Það er álíka að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta eins og að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort það eigi að borga skatt eða ekki.
Það sem áróðursmeistararnir þegja um er að segja hvað gerist ef við borgum ekki. Staðreyndin er sú að skuldin vegna Icesave fer ekki neitt. Hins vegar eru miklu meiri líkur á því að við munum fá miklu verri kjör ef við neitum að veita ríkisábyrgðina auk þess sem þjóðin myndi endanlega missa allan trúverðugleika hjá vestrænum þjóðum þar á meðal hjá vinaþjóðum okkar norðurlöndunum.
Bos segir Íslendinga sýna ábyrgð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.12.2009 | 15:19
Það væri eftir öllu.
Að samningurinn verði felldur og óvinir ríkisstjórnarinn komi landinu endanlega á kaldan klakann. Hvað tekur þá við. Hægri stjórn aftur. Yrði það ekki dásamlegt. Sú stjórn reyndist okkur svo vel síðast er það ekki?
Ef svo fer verður að viðurkennast að við erum vitleysust í heimi ekki bara stórust eins og einhver sagði.
Útiloka ekki að Icesave verði hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2009 | 12:47
Bjartur í Sumarhúsum formaður Sjálfstæðisflokksins.
Átakanlegt var að lesa viðtal við formann Sjálfstæðisflokksins á forsíðu Morgunblaðsins í dag.
Þar lýsir hann þeirri skoðun Sjálfstæðismanna að þeir ætli að vera fyrir utan ESB og þar að auki að fella Icesavesamninginn. Þetta minnir óneitanlega á Bjart í Sumarhúsum þegar hann eftir að hafa lennt í endalausu basli og misst bæði eiginkonu og skepnur i vonlausri baráttu við náttúruna ákvað í lok sögunnar að fara aftur upp á heiðina.
Sama er uppi á teningnum hjá hinum unga formanni Sjálfstæðisflokksins. Eftir að efnahagskerfi þjóðarinnar hefur hrunið þá vill hann þrátt fyrir það eins og Bjartur forðum engin samskipti hafa við við nábúa sína þó hann viti að gjaldmiðill þjóðarinnar er handónýtur og mun aldrei nýtast í framtíðinni.
Spurt er hvað vakir fyrir þessum unga manni. Við hvað er hann hræddur?. Er hann að þóknast Davíð Oddsyni með þessum fáránlegu skoðunum sem eru eins og allir vita ekki í samræmi við hans eigin skoðanir eins og hann lýsti þeim fyrir nokkrum misserum síðan.
Hann verður eins og allir í hans sporum hafa þurft að gera að hrista af sér fortíðardrauga og gamla formenn sem eru hættir í pólítík en geta samt ekki hætt að skipta sér af því sem þeim kemur ekki við.
Er næsta skref hjá þessum unga manni að fara að verja ástarbréfin hans Davíðs eða frammistöðu hans í jöklabréfunum en áætla má að þessi mistök seðlabankastjórans fyrrverandi muni kosta þjóðina 3x meira en hún þarf nokkurn tímann að borga vegna Icesave samninganna.
Ætlar síðan formaðurinn að bíta höfuðið af skömminni með því að leggja til að þjóðin hafni Icesave samningunum og leiða yfir þjóðina þær hörmungar sem því yrði samfara.
Er ekki hreinlegra að segja af sér strax.
17.12.2009 | 20:21
Ómarktæk niðurstaða.
Niðurstöður úr könnun Eyjunnar eru greinilega ómarktækar. Aðeins rúm 7000 manns tóku þátt í kosningunni sem er aðeins 3 til 4% atkvæðisbærra manna í landinu. Þetta er ótrúlega lítil kosningaþátttaka þrátt fyrir mikinn áróður þeirra sem eru á móti Icesave málinu.
Í raun er því hér um mikinn sigur að ræða fyrir þá sem vilja samþykkja Icesave. Engin spurning er um að i alvöru þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þátttakan væru 180 til 200 þúsund manns þá myndi stuðningur við Icesave samkomulagið vera yfirgnæfandi.
Furðu sætir að andstæðingum Icesavesamkomulagins skyldi ekki hafa tekist að smala saman nema um 5000 manns til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni á móti Icesave. Þetta sýnir ótvírætt að fólk er að snúa baki við æsingamönnunum og er farið að líta raunhæft á hlutina.
70% vilja hafna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.12.2009 | 09:53
Kjósum.
Hvet landsmenn hér með til að kjósa um Icesave málið þó ekki væri nema bara sér til skemmtunar. Farið inn á heimabankann, sækið rafræn skjöl og þar er í boði skjal tengt Íslendingabók. Mjög auðvelt.
Kosningin er ekki opin nema til 16:30 í dag. Svo það er um að gera að drífa sig.
Sýnum ríkisstjórninni stuðning. Ekki veitir af. Nóg er af neikvæðninni í þeirra garð.
15.12.2009 | 20:19
Jóhanna er hreinskilin.
Alveg dæmalaust er hvað Íslendingar eiga erfitt með að viðurkenna augljósar staðreyndir. Það vita allir sem vilja vita að í hruninu í fyrra snéru allir við okkur baki nema við bæðum um aðstoð hjá AGS.
Bandaríkjamenn sneru algjörlega við okkur baki og norðurlandaþjóðirnar, frændur okkar og vinir buðust til að aðstoða okkur ef við færum nákvæmlega eftir ráðleggingum AGS. Á sama hátt hefur það alltaf legið fyrir að AGS og þar með norðurlandaþjóðirnar og aðrar þjóðir sem hafa boðið okkur lán, allar þessar þjóðir hafa í raun og veru sett það sem skilyrði fyrir aðstoð sinni að við stæðum við Icesavesamninginn.
Það er alveg sama hvernig við bölsótumst út í AGS þá verðum við að viðurkenna að þeir voru bjargvættir okkar. Svo einfallt er það. Komin er tími til að við dekurbörnin á Íslandi horfumst í augu við staðreyndirnar undanbragðalaust.
Icesave-samningur forsenda fyrir endurskoðun hjá AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2009 | 20:30
AGS vísar bölmóðinum á bug.
Hressandi var að hlusta á viðtal Þóru Arnórsdóttur í Kastljósinu í kvöld við Mark Flanagan starfsmann AGS. Þarna kom berlega í ljós enn einu sinni hve áróðurinn gegn Icesave er ómerkilegur.
Þarna talaði maður með mikla reynslu og sagði auðvitað að Íslendingar þyrftu engu að kvíða og að fráleitt væri að hafna Icesave samningnum af hræðslu við það að þá færi allt til fjandans. þvert á móti var hann mjög bjartsýnn fyrir Íslands hönd og sagði að innan 5 ára værum við aftur komin í fremstu röð með tiltölulega litla skuldabyrði.
Á bak við þessa jákvæðu spá er gert ráð fyrir því að við stöndum í lappirnar og samþykkjum Icesave samninginn.
Það er hins vegar mikill ábyrgðarhlutur að blekkja þjóðina til að hafna Icesave samningnum því það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar um langa framtíð.
Það er kominn tími til að spunameistarar áróðursins horfist í augu við sjálfa sig og viðurkenni að þeir eru ekki að hugsa um hagsmuni fólksins í landinu heldur eingöngu að nota Icesave málið til að koma ríkisstjórnini frá völdum.
Samkomulag um aðra endurskoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2009 | 15:33
Áróðurinn á móti Icesave.
Áróðurinn á móti Icesave er orðinn svo yfirgengilegur að ekki er hægt að sitja undir því lengur. Menn fara fram í stórum fylkingum og ljúga að sinni eigin þjóð annað hvort gegn betri vitund eða þeir hreinlega skilja ekki um hvað þetta mál snýst.
Staðreyndin er sú að úr því sem komið var eftir herfilega frammistöðu Landsbanka Íslands eru þessir samningar um Icesave það besta sem völ er á. Þeir sem áttu innistæður í Landsbankanum hérna heima fengu þær greiddar 100%. Þeir sem Landsbankinn plataði til að leggja inn á Icesave reikningana fengu einnig allt borgað en munurinn er sá að við borgum aðeins 20 þús evrur að hámarki en Bretar og Hollendingar borga sjálfir afganginn.
Við reyndum að klóra í bakkann í fyrrahaust. Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún og Árni Matthiesen reyndu allt hvað þau gátu til þess að komast hjá því að borga nokkuð og fóru m.a. fram á að dómstólar skæru úr um þetta. Því var algjörlega hafnað af viðsemjendum okkar eins og frægt er orðið sem endaði með því að fulltrúar Íslands samþykktu að fara svonefnda samningaleið með málið. Í tilefni af því var gert minnisblað sem jafngildir samningi milli þjóða að Íslendingar skyldu borga þessa skuld á 10 árum frá þeim degi á 6,7% vöxtum.
Þetta var staðan þegar núverandi ríkisstjórn tók við málinu og hún skipaði nefnd til að ganga frá endanlegum samningum. Sú nefnd náði mjög góðum árangri og gerði samning til 14 ára sem hefur það í för með sér að við byrjum að borga eftir 7 ár af því sem þá verður eftir af skuldinni eftir að eignir Landsbankans hafa komið til lækkunnar á skuldinni.
Þetta er í stórum dráttum Icesave málið í hnotskurn.
Áróðursmeistarar á móti Icesave eru búinir að setja málið algjörlega á hvolf og 70% Íslendinga virðast trúa þessu bulli. Eitt gott dæmi er framganga svokallaðs inDefence hóps en þar sitja menn daginn út og daginn inn og reikna þjóðina út í svartnættið. Í fyrsta lagi reikna þeir án þess að blikna að engar eignir komi á móti skuldunum og í öðru lagi eru þeir stöðugt í gjaldeyrisútreikningum sem byggjast á því að Ísland verði í framtíðinni í algjörri einangrun eins og Bjartur í Sumarhúsum forðum. Auðvitað göngum við í Evrópusambandið og tökum upp evru fyrr en síðar þar með eru allir þessir gjaldeyrisútreikningar að engu orðnir.
Vil hvetja alla Íslendinga til að hugsa þetta mál af yfirvegun og treysta ekki um of fullyrðingum spunameistaranna. Það eina sem þeir eru að hugsa um er að nota Icesave málið til að koma ríkisstjórninni frá völdum punktur. Svo einfalt er það.
11.12.2009 | 17:26
Hetjur.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra (og ríkisstjórnin nærri því öll) eru menn ársins svo mikið er víst og ekki eru þau í vinsældarkosningum eins og allir sjá.
Þau eru afburðafólk. Gefum þeim frið til að vinna þessi óvinsælu verk sem svo nauðsynleg eru samfélaginu til heilla. Það veit stjórnarandstaðan sem gerir samt allt sem hún getur til að leggja stein í götu þeirra og um leið tefja fyrir uppbyggingu og hagsmunum heimilanna í landinu, eins furðulegt og það nú er.
Vonandi finna þau öll, sem stjórna landinu, fyrir stuðningi hins þögla meirihluta þó að óánægjuraddirnar séu háværari.
Megi Ísland svo þokast alla leið og lengra í það jafnaðarþjóðfélag sem það var hér á árum áður. Þá getum við lifað saman aftur í sátt og hófsemi í þessu góða landi þar sem misvitrir menn hafa því miður stjórnað svo allt of lengi.
Icesave mun ekki hverfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2009 | 22:15
Hefnd Ögmundar.
Í dag náði Ögmundur hefndum fyrir sviplegt brotthvarf úr ríkisstjórninni. Nú fékk hann tækifærið til að launa Jóhönnu lambið gráa. Þessi barnalega hefnigirni er eina skýringin á framkomu hans í dag.
Skynsamur maður eins og hann veit auðvitað að ekkert er um annað að ræða fyrir okkur en að ganga frá þessu máli. Að sumu leyti er skiljanlegt að Ögmundur skuli vera reiður. Í nær tvo áratugi er hann búinn að vera í einmanalegri stjórnarandstöðu á móti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og fékk nú loksins tækifæri til að fara í ríkisstjórn.
Vegna samstarfsörðugleika varð hann að hrökklast úr stjórninni. Auðvitað nær svona barnaleg hefnigirni eins og hann sýndi í dag ekki nokkurri átt. Frekar hélt ég að hann myndi ganga fyrir björg en að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í árásum hans á vinstri menn í landinu. því auðvitað vakir ekkert annað fyrir Sjálfstæðisflokknum en að komast til valda þó að hann beiti fyrir sig einhverjum Icesave útúrsnúningi.
Nú er Ögmundur búinn að hefna sín á Jóhönnu og í framhaldinu ætti að vera hægt að taka upp eðlileg samskipti á ný.
Útilokað er að hann taki aftur jafn fáránlega afstöðu og hann gerði í dag þegar kemur að úrslita atkvæðagreiðslu í þinginu um Icesave málið. Engin mun erfa þetta glappaskot við hann, við erum öll mannleg en að Ögmundur Jónasson greiði tvisvar sinnum atkvæði með íhaldinu á móti vinstri mönnum er algjörlega útilokað.