1.8.2009 | 13:03
Eva Joly á villigötum.
Eva Joly er þekkt af rannsóknum sínum á fjársvikamálum. Það er hennar verksvið og væntum við góðs af því. Hins vegar er hún komin á villigötur þegar hún fer út fyrir verksvið sitt og fer að ræða skuldamál Íslendinga yfir höfuð. Það bætir ekki okkar stöðu að Eva Joly sé að væla fyrir okkar hönd út um allan heim.
Seðlabanki Íslands gaf út það sérfræðiálit 15. júlí s.l. að við Íslendingar gætum auðveldlega staðið við Icesave samkomulagið. Einnig hefur komið fram að lánakjör af þessu láni er með því hagstæðasta sem gerist.
Þar sem fjármálakreppan er á undanhaldi bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu má telja víst að þetta varfærna mat Seðlabankans um að 75% af eignum Landsbankans muni endurheimtast standist örugglega.
Til þess að Ísland öðlist viðeigandi sess meðal Evrópuþjóða verðum við því að staðfesta Icesave samninginn án unddanbragða.
Ef við samþykkjum hann ekki og höldum áfram að væla í anda Evu Joly mun það þýða annað bankahrun og óendanlega erfiðleika og lífskjaraskerðingu fyrir íslenska þjóð.
26.7.2009 | 14:54
Málatilbúnaður Jóns Bjarnasonar.
Í dag höfum við orðið vitni að fráleitum málatilbúnaði Jóns Bjarnasonar ráðherra þegar hann leggur til að aðildarviðræðum við ESB verði frestað. Tímasetning þessa frumhlaups ráðherrans er greinilega engin tilviljun en á morgun mánudag munu utanríkisráðherrar ESB einmitt fjalla um umsókn Íslands að sambandinu.
Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að sækja um aðild að ESB og það stendur. Framkvæmd málsins er í höndum utanríkisráðherra skv. lögum Frumhlaup Jóns og tímasetning er greinilega hugsuð til að veikja stöðu utanríkisráðherrans.
Ekki þarf að hafa mörg orð um það hvaða áhrif svona niðurrifsstarfsemi innan ríkisstjórnar getur haft.
![]() |
Vill fresta umsóknarferli ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.7.2009 | 19:55
Múgsefjun gegn Icesave samningnum.
Nú er í gangi mikil áróðursherferð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn Icesave samningnum í þeim tilgangi að koma ríkisstjórninni frá völdum. Það skiptir engu máli hvaða sannanir koma fram um málið ef þær passa ekki inn í þennan áróður þá eru þær taldar rangar.
Séfræðingar Seðlabankans hafa sent frá sér hagfræðiálit sem segir greinilega að Íslendingar muni auðveldlega ráða við Icesave skuldbindingarnar. þetta er náttúrulega ekki nógu góð niðurstaða og því segir áróðursverksmiðjan að þetta sé vitleysa.
Einnig hefur komið fram að vextir af Icesaveláninu og lánakjör eru með því besta sem þekkist og jafnvel betri heldur en lánakjör á væntanlegum lánum frá Norðurlöndunum. Þetta er auðvitað heldur ekki nógu góð niðurstaða og því fullyrt þetta sé vitleysa.
Svona mætti lengi telja en meginatriðið er að stjórnarandstæðan hefur lagst svo lágt að að setja sig á móti þessu mikilvæga máli í þeim eina tilgangi að reyna að fella ríkisstjórnina sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum.
![]() |
Icesave: Gæti stefnt í óefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.7.2009 | 00:35
Hvað er Ögmundur eiginlega að hugsa?
Furðulegur pistill hjá Ögmundi Jónassyni. Hvað er maðurinn að meina? Kallar hann það þjóðarhag að stefna landinu í einangrun og stórfellt atvinnuleysi og stoppa þjóðfélagið endanlega. Koma því á kaldan klakann.
Til að halda uppi hagvexti í landinu vita allir sem vilja vita að megin forsenda fyrir því er að hafa gott samstarf við vinaþóðir okkar bæði Norðurlanda þjóðir og aðrar Evrópuþjóðir.
Þó að það sé erfitt að taka á sig þessar byrðar þá er það engu að síður staðreynd að við komum okkur sjálf í þessa erfiðleika og eigum að vera menn til þess að viðurkenna það og standa við samninga sem við gerðum við þessar þjóðir s.l. haust í staðinn fyrir að hrópa ó og æ við viljum ekki borga.
Staðreyndin er nefnilega sú að ef við fellum þetta samkomulag þá er alls ekki þar með sagt að við sleppum við að borga þvert á móti munum við þurfa að borga miklu meira.
Sem ábyrgur stjórnmálamaður hlýtur Ögmundur að endurskoða afstöðu sína ef hann vill þjóðinni vel sem hann auðvitað vill. Ögmundur þarf að falla frá einangrunarstefnu sinni og hugsunarhætti Bjarts í Sumarhúsum sem á ekki heima í nútímasamfélögum.
![]() |
Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2009 | 21:45
Steingrímur á að tjá sig um Lilju.
Afhverju tjáir Steingrímur sig ekki um ummæli Lilju. Auðvitað á hann að hafa sterka skoðun á þessu frumhlaupi þingmannsins sem virðist algerlega misskilja stöðu sína. Við búum við þingbundna ríkisstjórn. Til þess að slíkar ríkisstjórnir geti stjórnað af festu og ákveðni þurfa viðkomandi stjórnarþingmenn að standa með sinni ríkisstjórn gegnum þykkt og þunnt eftir að málin hafa verið lögð fyrir Alþingi. Annar möguleiki er einfaldlelga ekki fyrir hendi.
Áður en málin eru lögð fyrir Alþingi eru þau lögð fyrir þingflokkana til ákvörðunar. Þar er tími þingmanna til að hafa áhrif. Þar geta þeir rifist endalaust og breytt frumvörpum. En eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að leggja fram frumvarp með áorðnum breytingum þá verða stjórnarþingmenn að standa saman allir sem einn.
Það hljóta allir að sjá að það gengur ekki að stjórna landinu þannig að til að ná fram ákveðnum málum á Alþingi þurfi alltaf að kanna fyrst í hvernig skapi Lilja Mósesdóttir eða aðrir þingmenn eru þann og þann daginn. Þetta fyrirkomulag var við líði í hinni fallvöltu ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen árið 1980 til 1983 en þá þurfti ávallt fyrir atkvæðagreiðslur að kanna hvernig ákveðnir þingmenn höfðu farið fram úr þann morguninn. Sú ríkisstjórn leystist upp og sama mun gerast með þessa ríkisstjórn ef fram heldur sem horfir.
Auðvitað verður Steingrímur því að taka á þessu alvarlega máli og koma á þannig aga í sínum flokki að aðrir stjórnmálaflokkar treysti sér í samstarf við VG.
![]() |
Tjáir sig ekki um ummæli Lilju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2009 | 09:52
Enn og aftur á móti.
ótrúlega pirrandi að nokkrir aðilar (alltaf þeir sömu) í VG skuli sí og æ og endalaust geta haldið stjórnarsambandinu í gíslingu stjórnarandstöðunni
til góða. Ekki bara einn á móti á þeim bæ, eins og oft í Framsókn forðum, við nefnum engin nöfn, heldur minnst þrír. Steingrímur J. á alla mína samúð.
![]() |
Erfitt en verður að leysast" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.7.2009 | 13:30
Er Þorgerður Katrín verðandi foringi í Sjálfstæðisflokknum.
Það vakti óskipta athygli á við atkvæðagreiðsluna um aðildarviðræður við ESB að nær allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru á móti aðildarviðræðum. Vitað er að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru að stærstum hluta íbúar þéttbýlisins. Skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti þessa fólks er hlynnt aðild að ESB. Því er spurt hvers vegna í ósköpunum 14 af 16 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn aðildaviðræðum.
Ljóst er að forysta flokksins og flestir þingmenn hafa skotið sig í fótinn í þessu mikilvæga máli. Þegar við verðum komin inn í ESB og rifjum upp hverjir voru helstu dragbítar í þessu stóra máli þá kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn sem hingað til hefur gumað af því að vera flokkur atvinnurekenda og frjálsra viðskipta var helsti dragbíturinn ásamt gömlum Alþýðubandalagsmönnum.
Sjálfstæðisflokkurinn getur þakkað tveimur þingmönnum flokksins að skömm hans skyldi ekki verða algjör í þessu máli. Þær höfðu víðsýni til að skilja um hvað verið var að kjósa í stað þess að taka þátt í sandkassaleik og ímynduðu stríði við Samfylkinguna.
Ljóst er að vegur Þorgerðar Katrínar hefur vaxið mikið í þessu máli og mun hún örugglega velgja hinum tapsára Bjarna Benediktssyni undir uggum í framtíðinni. Það er tímanna tákn fyrir niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins að sá sem skammaði Þorgerði Katrínu mest á miðstjórnarfundinum mun hafa verið Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdarstjóri flokksins sem hefur það helst sér til frægðar unnið að sitja í bankaráði Landsbankans þegar ákvarðanir um Icesave innlánin í Bretlandi og Hollandi voru ákveðin.
17.7.2009 | 11:50
Til hamingju kæru landar.
Stórkostlegur áfangi hjá þjóðinni náðist í gær þegar samþykkt var að sækja um aðild að ESB. Þetta stóð mjög tæpt en sem betur fór tókst niðurrifsöflunum ekki að ná sínu fram.
Loksins sjáum við möguleika á endurreisn þjóðfélagsins eftir hrunið. Til þess að eðlilegur hagvöxtur verði hjá þjóðinni er algjörlega nauðsynlegt að vinna traust annarra þjóða og hafa traustan gjaldmiðil. Þetta næst hvorutveggja með aðild að ESB þó auðvitað líði nokkur tími þar til þetta verði að veruleika. Ekki þarf að efast um það eitt augnablik að þjóðin mun samþykkja ESB ef vel tekst til með væntanlegan samning.
Nöturlegt var að fylgjast með frammistöðu Sjálfstæðismanna við atkvæðagreiðsluna í gær. Aðeins einn þingmaður flokksins greiddi atkvæði með aðildarumsókn að ESB þó vitað sé að 60 til 70% af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins styðja aðild. Bjarni Benediktsson formaður féll á fyrsta stóra prófinu sínu. Í ljós kom að þegar til kastanna kemur er hann aðeins tapsár fótboltastrákur úr Garðabæ. Erfitt er að sjá að hann eigi framtíð fyrir sér sem formaður flokksins eftir að hafa sýnt þetta dómgreindarleysi.
Þá er einnig athyglisverður málatilbúnaður þingflokksformanns VG. Fylgdist með umræðum um ESB þar sem Guðrfríður Lilja Grétarsdóttir flutti hálftíma ræðu um andstöðu sína við ESB. 29mín. og 45 sek. eyddi hún til að lesa upp skrifaða ræðu gáfaða háskólanemans sem vonast til að fá klapp á bakið frá prófessornum. Gallinn við þessa ,,flottu" ræðu var það hún minntist aldrei á aðalatriði málsins sem er að gjaldmiðill þjóðarinnar er ónýtur og eru allir sammála um það. Að óbreyttu fyrirkomulagi mun Ísland aldrei geta átt eðlileg samskipti við aðrar þjóðir eins og hægt var fyrir bankahrunið. Þessu aðalatriði málsins sleppti unga konan í sinni flottu ritgerð og er þetta einmitt einkenni á málflutningi andstæðinga ESB. Þeir halda langar ræður um aukaatriðin en þegar kemur að kjarna málsins skila þeir auðu.
5.7.2009 | 13:19
Bombur Davíðs.
Davíð Oddssyni var sagt upp bankastjórastarfi við Seðlabankann. Þeir sem stóðu að þessum gjörningi eða studdu hann skulu nú aldeilis fá fyrir ferðina. Í þeim tilgangi virðist Davíð útbúa bombur. Nú þegar hefur hann látið 2 bombur falla. Fyrsta bombann féll á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að skýrsla 70 landsfundarfulltrúa um stefnumótun flokksins undir forystu Vilhjálms Egilssonar væri einskis virði og að að hann sæi mjög eftir þeim trjágróðri sem notaður hafði verið til að framleiða þann pappír sem fór í skýrsluna. Þetta var fyrsta bomban, sem vakti mismikla kátínu og í raun eyðilagði Landsfund flokksins. Meira að segja Geir H. Haarde mótmælti foringja sínum í fyrsta og sennilega síðasta skiptið.
Nú er komið að bombu númer 2 sem er á þá leið í stuttu máli að fara eigi svokallaða dómstóla leið í Icesave málinu og aðalefni bombunnar er að gerð hafi verið skýrsla á vegum OECD sem segir að þegar algjört bankahrun verður þá gildi ekki almennir tryggingasjóðir heldur verði að grípa til annarra ráða. Óhamingja Davíðs fellst í því að þarna hætti hann að lesa skýrsluna því þarna taldi hann sig vera kominn með stórt tromp á hendi. Framhaldið var nefnilega það að þegar svona stórslys verða þá þarf að koma til ríkisábyrgðar.
Icesave samkomulagið fjallar nákvæmlega um þetta mál. Í Tryggingastjóðnum voru 19 ma. kr en Icesave skuldirnar í Bretlandi og Hollandi voru 700 ma. kr. Hvernig á að borga 700 ma. kr. með 19. ma. kr. Samkomulagið fellst í því að Íslendingar taka að sér hluta þessara skuldbindinga og Bretar og Hollendingar hluta.
Strax í upphafi samninga var ljóst að ekkert samkomulag var um hina svokölluðu dómstólaleið. Í framhaldi af því tóku þjóðirnar þá ákvörðun að semja um skuldbindingarnar. F.h. Íslands tóku þátt í þessum samningum Geir H. Haarde, Árni Matthiesen og Ingibjörg Sólrún.
Þrátt fyrir að samið hafi verið um þessa málsmeðferð fyrir 9 mánuðum og Sjálfstæðismenn stóðu fyrir að stærstum hluta segir Davíð nú í bombu sinni að þetta sé allt eintóm vitleysa og nú skulum við bara fara dómstólaleiðina.
Þrátt fyrir mikla viðleitni getur Davíð heldur ekki í bombu sinni hrakið það að AGS og öll Norðurlöndin hafa sett það skilyrði fyrir aðstoð sinni að við göngum frá Icesave samningnum. Meira að segja stóð hann sjálfur fyrir því sem fultrúi hins sjálfstæða Seðlabanka að skrifa undir samkomulagið við AGS. Afhverju gerði hann það?. Afhverju mótmælti hann ekki þá og henti pennanum út um gluggann?.
Hvernig sem á þetta er litið er gersamlega ómögulegt að botna í þessum náunga en það virðist ekki standa steinn yfir seini í málflutningi hans. Þess vegna minnir þetta óneitanlega á aðrar frægar bombur á fyrri hluta síðustu aldar.
![]() |
Ekki fundið neina slíka skýrslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.7.2009 | 14:17
Í hvaða liði er Guðlaugur Þór og Sjálfstæðisflokkurinn?.
Það vakti sérstaka athygli í umræðum um Icesave samningana á Alþingi að Guðlaugur Þór Þórðarson hrópaði að Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra og spurði með miklum þjósti ,,í hvaða liði hann væri". Tilefnið var að Gylfi Magnússon hafði minnt á þá augljósu staðreynd að Icesave martröðin væri tilkomin af glannaskap Landsbankans. Hvers vegna mátti ekki minna á þessa augljósu staðreynd? Er það kannski vegna þess að Guðlaugur Þór og Sjálfstæðisflokkurinn fengu 70 milljónir kr. í styrk frá Landsbankanum eins og frægt er orðið. Má þá sannleikurinn ekki koma í ljós?.
Það hlýtur að liggja í augum uppi að fram þarf að fara rannsókn af háttsemi Landsbankans í þessu máli og þá ekki bara háttsemi bankastjóranna heldur hýtur þar einnig að koma til rannsóknar þáttur bankaráðs Landsbankans en eins og kunnugt er átti framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins sæti í bankaráðinu á þessum tíma. Það er alveg sama hvað Guðlaugur Þór gólar sannleikurinn verður að koma í ljós. Síst af öllu eigum við að líða að stráklingar eins og Guðlaugur Þór séu að ráðast á yfirburðamenn eins og Gylfa Magnússon prófessor sem reynst hefur þjóðinni óskaplega vel í sínum embættisstörfum.